Viðskiptaskilmálar Flugkortsins

 

1.Skilgreiningar, útgáfa korts, gildistími
1.1.Eftirfarandi hugtök í skilmálum þessum eru skilgreind á þennan hátt:
        Reikningshafi: Sá sem gert hefur samning um stofnun kortareiknings.
        Korthafi: Reikningshafi eða annar sá sem reikningshafi heimilar að hafi kort sem gefið er út á kortareikning hans.
        Útgefandi: SaltPay hf.
1.2.Flugkort er gefið út af SaltPay hf., í samvinnu við Flugfélag Íslands. Flugkortið er venjulega gefið út til tveggja ára í senn og stofnast þá kortareikningur. Standi korthafi við skuldbindingar sínar er kortið endurnýjað, án umsóknar, en gegn árgjaldi. Árgjald er fært fyrirfram á kortareikning samkvæmt gjaldskrá fyrir 12 mánuði í senn. Hægt er að fá útgefið fleiri en eitt kort á kortareikning með skriflegu samþykki reikningshafa. Flugkortið má innkalla án fyrirvara, komi til misnotkunar eða vanskila hjá korthafa.
1.3.SaltPay hf. áskilur sér rétt til að leita allra upplýsinga um getu umsækjanda og fjárhag, sem nauðsynlegar eru að mati útgefanda til að afgreiða umsókn, þar á meðal upplýsingar frá Creditinfo Lánstrausti hf., s.s. áhættumat, upplýsingar úr vanskilaskrá og öðrum gagnagrunnum sem félagið rekur.

2.Úttektartímabil
2.1.Úttektartímabil hefst fyrsta dag hvers mánaðar og lýkur síðasta dag sama mánaðar.

3.Almenn notkun kortsins
3.1.Korthafi skal rita nafn sitt á kortið við móttöku og hefur einn heimild til notkunar þess.
3.2.Með fyrstu notkun kortsins samþykkir reikningshafi og/eða korthafi að hlíta gildandi viðskiptaskilmálum. Flugkortið veitir rétt til úttektar á vöru og þjónustu hjá Flugfélagi Íslands og þeim aðildarfyrirtækjum sem Flugfélag Íslands hefur samið við um móttöku kortsins hér á landi. SaltPay hf. og Flugfélag Íslands bera enga ábyrgð á því ef hafnað er móttöku kortsins sem greiðslu hjá aðildarfyrirtæki, né því tjóni sem leitt getur af því.
3.3.Korthafi skuldbindur sig til að greiða að fullu allar úttektir sínar eins og þær koma fram á úttektarseðlum þeim sem hann hefur áritað við úttekt, heimilað við símapöntun eða á annan hátt samþykkt til færslu á kortið.
3.4.Aukakorthafi ber ábyrgð á greiðslu úttekta sinna á kortareikninginn til jafns á við reikningshafa. Aðalkorthafi/reikningshafi ber ábyrgð á úttektum á aðal- og aukakortum.

4.Árgjald
4.1.Við útgáfu kortsins í fyrsta sinn greiðir korthafi árgjald. Korthafi heimilar SaltPay hf. að skuldfæra kortareikning sinn fyrir árgjaldi eins og það er ákveðið hverju sinni.
4.2.Útskriftargjald er innheimt fyrir hvern útsendan gíróseðil/reikning samkvæmt gjaldskrá útgefanda.

5.Greiðslur
5.1.Eindagi greiðslna er 20. dagur hvers mánaðar á eftir úttektarmánuði en færist til næsta opnunardags banka ef 20. er frídagur.
5.2.Ef korthafi/reikningshafi hefur athugasemdir varðandi reikningsyfirlit sitt, skal hann tilkynna það til skrifstofu Flugfélags Íslands fyrir eindaga, annars telst reikningsyfirlitið staðfest af honum.
5.3.Hafi greiðsla ekki borist á réttum eindaga leggjast á skuldina vanskilavextir, eins og þeir eru auglýstir af Seðlabanka Íslands hverju sinni, frá eindaga til greiðsludags. Áskilinn er réttur til að stöðva allar greiðslur af kortareikningi, hvort heldur sem er vegna nýrra úttekta eða umsaminna greiðslna, verði greiðslufall á einhverjum hluta gjaldkræfrar skuldar á kortareikningi reikningshafa samkvæmt bókum útgefanda.
5.4.SaltPay hf. áskilur sér rétt til að fela lögfræðingi innheimtu á vanskilum ásamt öllum áföllnum kostnaði. Ef kemur til slíkrar innheimtu mun Flugfélag Íslands sjá um innheimtuna á úttektum vegna Flugfélags Íslands.

6.Úttektarheimild
6.1.Korthafi skuldbindur sig til að taka ekki út á kreditkortið fyrir hærri upphæð en sem nemur umsamdri úttektarheimild hverju sinni. Beiðni um hækkaða heimild skal beina til Flugfélags Íslands í síma 5703200 eða með tölvupósti á [email protected]

7.Ábyrgð á færslum
7.1.Ef korthafi eða reikningshafi hefur athugasemd við færslu á kortareikning, skal hann gera skriflega og undirritaða athugasemd hjá útgefanda innan 10 daga frá eindaga greiðslu. Eftir 30 daga frá skiladegi færslu samkvæmt yfirliti er útgefanda ekki skylt að taka athugasemd til meðferðar.
7.2.Telji korthafi að kort hans hafi verið notað með sviksamlegum hætti ber honum að tilkynna það án tafar til útgefanda. Í öllum tilvikum þegar grunur um sviksamlega kortanotkun er að ræða ber útgefanda að loka korti og korthafa að afhenda kortið til útgefanda. Korthafi ber ekki tjón vegna úttekta sem hann á ekki sannarlega aðild að. Korthafa ber skylda til að aðstoða útgefanda við vinnslu málsins og lágmarka tjónið eins og kostur er.
7.3.Þrátt fyrir ákvæði 7.1 og 7.2 hefur korthafi lengst 13 mánuði til að gera athugasemdir við færslur á kortareikning, enda geti korthafi sýnt fram á að útgefandi hafi ekki uppfyllt ákvæði skilmála þessara um birtingu reikningsyfirlits eða að ómögulegt hafi verið að hafa uppi athugasemdir innan áðurnefndra tímamarka.
7.4.Útgefandi tekur ekki ábyrgð á gallaðri vöru eða þjónustu sem greitt er fyrir með Flugkorti, né heldur á nokkrum öðrum vanefndum seljanda vöru eða þjónustu sem greitt er fyrir með Flugkorti. Kvörtunum út af slíku skal korthafi beina til Flugfélags Íslands.
7.5.Útgefandi ber ekki ábyrgð á því ef móttöku kortsins er synjað um greiðslu hjá seljanda, né því tjóni sem leitt getur af því.

8.Tryggingar 
8.1.Reikningshafi skal leggja fram tryggingar fyrir úttektum.
8.2.Óheimilt er að nota Flugkort eftir að gildistími þess er útrunninn eða það hefur verið ógilt. Misnotkun kortsins varðar við lög m.a. 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
8.3.Vilji korthafi segja upp viðskiptum sínum skal það gert skriflega, til Flugfélgas Íslands eða SaltPay a.m.k. einum mánuði fyrir lok gildistíma kortsins. Berist uppsögn síðar skal korthafi greiða gjald vegna útgáfu nýs korts.
8.4.SaltPay hf. getur hvenær sem er sagt upp viðskiptum við korthafa og innkallað útgefin kort.

9.Glatað kort 
9.1.Ef Flugkort glatast skal korthafi tafarlaust tilkynna það til SaltPay hf. eða Flufélags Íslands.
9.2.Korthafi skal, þar til tilkynning hans berst útgefanda, bera það tjón sem hann hefur orðið fyrir, vegna taps, þjófnaðar eða fölsunar á kortinu, en þá ekki meira en sem nemur 150 evrum í hverju tjónstilviki, nema ef um stórfellt gáleysi eða svik hans hafi verið að ræða.
9.3.Óheimilt er að nota Flugkort eftir að það hefur verið tilkynnt glatað. Slíkt kort skal senda sundurklippt til SaltPay hf.

10.Persónuvernd
10.1.Korthafi veitir með samþykki skilmála þessara útgefanda heimild til að skrá í tölvukerfi sín upplýsingar um korthafa, aukakorthafa og ábyrgðarmenn. Allar upplýsingar um kortareikninga og notkun korta eru vistaðar í tölvukerfi SaltPay hf.
10.2.Vinnsla og geymsla upplýsinga skal vera í samræmi við það sem nauðsynlegt er til starfrækslu greiðslumiðlunar. SaltPay hf. mun auk þess gæta þess að vinnsla og vistun persónuupplýsinga sé ætíð í samræmi við gildandi lög og reglur.
10.3.Ábyrgðaraðili vinnslu er SaltPay hf.

11.Ýmsir skilmálar 
11.1.Reikningshafi skal tafarlaust tilkynna SaltPay hf. og Flugfélagi Íslands verði breyting á heimilisfangi og netfangi hans/þeirra til að tryggja að yfirlit og aðrar upplýsingar geti borist honum með eðlilegum hætti.
11.2.Korthafi skuldbindur sig til að fara að öllu leyti eftir þeim reglum SaltPay hf. sem gilda hverju sinni enda berist honum tilkynningar um þær.
11.3.SaltPay hf. tekur ekki ábyrgð á gallaðri vöru eða þjónustu sem tekin er út á Flugkort. Kvörtunum út af slíku skal korthafi beina til Flugfélags Íslands..
11.4.SaltPay hf. áskilur sér allan rétt til breytinga á viðskiptaskilmálum þessum. Breytingar skulu tilkynntar eigi síðar en 15 dögum áður en næsta úttektartímabil hefst. Í tilkynningunni um breytta skilmála skal vakin athygli á því í hverju breytingarnar felast og á rétti korthafa til að slíta viðskiptunum. Sé kort notað eftir að breyttir skilmálar hafa tekið gildi, telst hann samþykkur breytingunni. Birting nýrra viðskiptaskilmála á vefsíðu SaltPay hf. telst nægileg tilkynning samkvæmt framansögðu.
11.5.Fallist korthafi ekki á breytta viðskiptaskilmála, getur hann slitið viðskiptum með því að klippa í sundur Flugkortið og senda það sundurklippt til SaltPay .

12.Lög og ágreiningsmál 
12.1.Um túlkun viðskiptaskilmála þessara, sem og úrlausn mála sem upp kunna að rísa vegna notkunar Flugkortsins skal fara eftir íslenskum lögum.
12.2.Kröfumál gegn korthafa vegna viðskipta hans með Flugkortið, má reka gegn honum í því landi þar sem hann telst hafa fasta búsetu hverju sinni, skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili.
12.3.Mál sem rísa vegna brota á skilmálum þessum skal reka fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Skilmálar þessir tóku gildi þann 3. apríl 2015

 

 

FÁ TILBOÐ Í VIÐSKIPTI

Þessi vefsíða styðst við vafrakökur

SaltPay notar vefkökur m.a. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Nánari upplýsingar um vefkökunotkun